Hekla lætur vita af sér

Samkvæmt fréttum má búast við Heklugosi á næstunni. Hekla er tæplega 1500 m. há og gýs venjulega með áratuga millibili en nú eru liðin rúm 13 ár, gaus síðast 26. febrúar árið 2000.
Í vegahandbókinni má lesa eftirfarandi um Heklu:
Hekla, frægasta eldfjall á Íslandi og eitt hinna kunnustu á jörðinni. Hekla er eldhryggur, 1491 m, og eftir fjallshryggnum er um 4 km löng sprunga. Hefur gosið 18 sinnum síðan sögur hófust, fyrst 1104 og síðast 2000, en þá gátu vísindamenn sagt fyrir um gosið með hálftíma fyrirvara með tilstyrk viðvörunarkerfis Veðurstofunnar. Auk þess hefur 5 sinnum gosið í næsta nágrenni Heklu frá landnámi. Í gosinu 1947 hækkaði Hekla um 50 m. Léttast er nú að ganga á Heklu að norðan eða norðvestan. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu fyrstir á Heklu 20. júní 1750.

Ný útgáfa af Iceland Road Guide í vor

Ný útgáfu af Iceland Road Guide, Vegahandbókin á ensku, kemur út í vor. Enska útgáfan er uppfærð annað hvert ár, kom síðast út árið 2011. Íslenska og þýska útgáfan, Island Auto Atlas, komu út á síðasta ári og verða uppfærðar og koma næst út vorið 2014.
Mikil vinna liggur í uppfærslu á efni og myndum. Við erum að fara yfir myndabankann og setjum hér inn eina mynd frá Löngubúð á Djúpavogi. Óttar Sveinsson, okkar maður, var á ferðinni þar síðasta sumar og tók þessa mynd.
Í Vegahandbókinni á bls. 108 má lesa um Löngubúð:
Verslun hófst á Djúpavogi á 16. öld. Þar er mjög gamalt verslunarhús, Langabúð. Húsið er talið vera frá 1790 og var reist af dönskum kaupmönnum. Í húsinu er sýning um líf og starf Ríkarðs Jónssonar (1888-1977) myndskera og myndhöggvara. Einnig er þar minningarstofa um Eystein Jónsson (1906-93) og konu hans Sólveigu Eyjólfsdóttur. Á lofti hússins má sjá ýmsa muni er tengjast sögu staðarins. Við hlið Löngubúðar er fuglasafn og handverkshús. Djúpivogur og nágrenni er kjörið svæði til fuglaskoðunar, enda er fuglalíf fjölbreytt í hreppnum.