Borgarvirki – vel þess virði að skoða

Borgarvirki er einn af þeim stöðum sem er vel þess virðið að skoða þegar ferðast er um Norðurlandið. Flestir víla fyrir sér að fara út af þjóðvegi númer 1 en missa þá af mörgum áhugaverðum stöðum. Borgarvikri er 9 km frá þjóðveginum, stendur við veg númer 717. Auðveld ganga er upp á Borgarvirkið og útsýni þaðan er mjög fagurt. Hringsjá er á toppnum.

Borgarvirki er klettaborg á ásunum milli Vesturhóps og Víðidals sem sést
vítt að um héraðið
, 177 m y.s. Borgin er stuðlabergsstapi, 10–15 m hár og
ofan í hann kringlótt dæld er opnast til austurs. Í skarðið hefur verið hlaðinn
geysimikill grjótveggur og inngangur gegnum hann. Grjóthleðslur eru
einnig víða á brúnum klettsins. Í dældinni eru tvær skálatóttir og brunnur.

Enginn veit til hvers Borgarvirki hefur verið gert. Munnmæli herma
að Víga-Barði
hafi gert það til varnar gegn herhlaupi Borgfirðinga, önnur
munnmæli eigna það Finnboga ramma. Tilgáta er að það hafi verið héraðsvirki.

Hesturinn – besti vinur barnanna

Þessi sérlega fallega mynd er tekin í Örlygshöfn sem gengur inn úr Patreksfirði.

Örlygshöfn er grösugur dalur við sjávarlón, kenndur við Örlyg Hrappsson að sögn Landnámabókar. Örlygur hafði þar vetursetu og hefur trúlega dregið upp skip sitt þar sem nú heitir Hnjótskrókur, en þangað inn mun hafa verið skipgengt á landnámsöld. Sögn er til um að þar væri festarhringur í kletti. Egill Ólafsson á Hnjóti fór að leita að festarsteininum og taldi sig hafa fundið hann. Í steininum munu vera för sem Egill taldi að gætu staðfest munnmælasöguna.

Hnjótur – Minjasafn Egils Ólafssonar er við Örlygshöfn. Á sumrin er opið alla daga en eftir samkomulagi á veturna. Á staðnum er kaffihús, handverksverslun, gistiaðstaða og tjaldsvæði. Við Örlygshöfn er einnig Hótel Látrabjarg.

Ísland allt árið – Jarðböðin í Mývatnssveit

Jarðböðin við MývatnÍsland allt árið er markaðsverkefni sem Íslandsstofa heldur utan um og er þetta þriðja starfsár verkefnisins. Markmiðið er að auka komur ferðamanna til landsins og hvetja innlenda ferðamenn til að ferðast um eigið land utan hánnatíma.

Verkefnið hefur gengið vonum framar og nú er í boði fjölbreytt afþreying um allt land allt árið.

Jarðböðin í Mývatnssveit eru opin allt árið. Í Vegahandbókinni má lesa eftirfarandi um Jarðböðin:… um einn kílómetra frá þjóðveginum í Bjarnarflagi, eru Jarðböðin við Mývatn. Baðfélag Mývatnssveitar hefur þar komið upp aðstöðu með náttúrulegri jarðgufu og baðlóni með tilheyrandi pottum og fleiru. Þar er móttaka, verslun, veitingasalur, búningsaðstaða, snyrtingar og fleira. ,,Tímamót í ferðaþjónustu á Norðurlandi” og ,,nýr þáttur í afþreyingu í Mývatnssveit,” segja menn.”

Myndina tók Óttar Sveinsson er hann kom við í Jarðböðunum í sumar.

Matarkistan – Uppskeruhátíð á Flúðum

Laugardaginn 7. september verður hin árlega uppskeruhátíð í Hrunamannahreppi. Í félagsheimilinu á Flúðum verður Matarkistan sem er markaður með vörum frá fjölmörgum aðilum úr sveitinni þar sem verður Kjöt frá Koti og kræsingar í krukkum, mjöl og fleira.

Bændamarkaður verður að Efra-Seli og “Opna íslenska grænmetismótið” verður á golfvellinum hjá þeim. Kaffihús og vinnustofur víða um sveitina verða opnar og Þakkargjörðarmessa verður í Hrunakirkju. Dagskráin er afar fjölbreytt.

Uppsveitahringurinn verður haldinn sama dag en þá er hlaupið og hjólað um uppsveitir Árnessýslu. Vegalengdirnar í ár eru 10 km. hlaup, 46 km. hjólreiðar og 10 km. hjólreiðar sem er ný grein. Þetta er annað árið sem þessi íþróttaviðburður verður en hann naut mikilla vinsælda í fyrra og búist er við fleiri þátttakendum í ár.