Iceland Airwaves – tónleikar út um alla borg

Iceland Airwaves, tónlistarhátíðin er nú haldin í fimmtánda sinn. Um 1.000 tónleikar eru haldnir víða um borgina fram á sunnudag svo sem í kirkju, leikhúsi, verslunum, safni auk hefðbundinna tónleikastaða.
Af þúsund tónleikum eru um 650 hluti af svokallaðri „off venue” dagskrá sem fólk getur sótt sér að kostnaðarlausu. Hægt er að nálgast dagskrána á heimsaíðu hátíðarinnar icelandairwaves.is
Um sjö þúsund manns alls staðar að úr heiminum hafa tryggt sér aðgang og uppselt var á hátíðina fyrir mörgum mánuðum. Myndin er frá tónleikum Emiliu Torrinin í Silfurbergi í Hörpu 30. október.

Safnahelgi á Suðurlandi dagana 31. október – 3. nóvember

Dagana 31. október til 3. nóvember verður viðamikil dagskrá á öllu Suðurlandi frá Höfn í Hornafirði til Þorlákshafnar sem nefnist Safnahelgi á Suðurlandi.
Safnahelgin hefur verið fastur liður á Suðurlandi í nokkur ár en aldrei verið eins fjölbreytt eins og í ár. Tónlist Marlene Dietrich í Eyjum, Mugison og félagar á Selfossi, draugasögur á Stokseyri, tónlist og frásagnir Þórðar í skógum, saumamaraþon á Hvolsvelli, gönguferð í Flóanum með Guðna Ágústssyni þetta er aðeins smá sýnishhorn af fjölbreytttninni. Frekari dagskrá er að finna á heimasíðunni sunnanmenning.is
Myndin er af Þórbergssetri að Hala í Suðursveit þar sem er sýning um Þórberg Þórðarson.

Verður hægt að sjá norðurljós í kvöld?

Frá september og fram í apríl er hægt að sjá norðurljósin dansa um himinhvolfin á heiðskýrum kvöldum.
Á vef Veðurstofa Íslands er hægt að fræðast um norðurljóasaspá nokkra daga fram í tímann. Fjömargar ferðaskrifstofur bjóða upp á norðurljósaferðir sem eru mjög vinsælar, sérstaklega meðal erlendra ferðamanna.
Myndin er af norðurljósadansi yfir Hjálparfossi í Fossá í Þjórsárdal.

Friðarsúlan tendruð í Viðey

Friðarsúlan var tendruð í Viðey í gær í sjöunda skiptið. Friðarsúlan er útilistaverk unnið af Yoko Ono til minningar um John Lennon og var verkið afhjúpað á afmælisdegi hans 9. október 2007. Fjöldi manns var í Viðey og komust færri til eyjunnar en vildu. Það er alltaf einstök stund að vera viðstaddur tendrun súlunnar. Friðarljósið setur sterkan svip á Reykjavík allt fram til 8. desember þegar slökkt er á súlunni á dánardegi Lennons.
Reykjavíkurborg gerði Yoko Ono að heiðursborgara Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Höfða. Við tendrun súlunnar voru Yoko Ono og Jón Gnarr í lopapeysum með friðarmerki sem Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir leikkona prjónaði.

Hittu heimamanninn á Austurlandi

Ferðaskrifstofan Tanni á Austurlandi er með verkefnastjórn yfir Meet the locals, verkefninu sem miðar að því að fólk komi sem ferðamenn en fari sem hluti af samfélaginu „Come as a guest, leave as a friend!“.
Markmiðið er að ferðamaðurinn kynnist Austurlandi, Austfirðingum, austfirskri menningu og siðum og taki virkan þátt í dagskránni, verði ekki bara áhorfandi. Upplifi íslensk sjávarþorp, sögu og menningu þeirra ásamt því einstaka fólki sem býr á stöðunum. Þegar fólk fer til baka til síns heima hefur það ekki aðeins séð fáfarnar slóðir heldur einnig kynnst fólki á svæðinu.
Boðið er upp á bæjargöngu með heimamanni, kvöldverð í heimahúsi, ýmsar dagsferðir. Þessi dagskrá er ekki síður í boði yfir vetrartímann þegar hægt er að lenda í ýmsum ævintýrum. Hægt er að fræðast meira um ferðirnar á heimasíðunni meetthelocals.is