Staður vikunnar – Ósvör við Ísafjarðardjúp

Í Ósvör við Ísafjarðardjúp, skammt frá Bolungarvík
hefur verið endurgerð gömul verbúð við vör sem róið var frá
til fiskjar á síðustu öld.
Þar er eitt þekktasta sjóminjasafn landsins.

Í Ósvör er tvöföld 19. aldar verbúð. Þar er til sýnis áraskipið Ölver með öllum búnaði. Í öðru húsinu eru veiðarfæri og önnur tæki og tól sem notuð voru við fiskveiðar á öldum áður, en í hinu húsinu er sýndur aðbúnaður sjómanna í veri. Í Ósvör er einnig fiskihjallur með fiski.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að föst búseta var í Ósvör 1905-1925.

Staður vikunnar – Gamla laugin að Flúðum

Gamla laugin er náttúrulaug sem er staðsett í Hverahólmanum við Flúðir. Upp á ensku er hún kölluð “The Secret Lagoon”.

Margir fallegir hverir eru við laugina, meðal annars lítill goshver, litli Geysir sem gýs á nokkurra mínútna fresti.

Laugin hefur nú verið endurbyggð í upprunalegri mynd og leitast við að halda sérstöðunni. Að baða sig í Gömlu lauginni er einstök upplifun allt árið um kring, hverasvæðið og gufan gefa svæðinu dulúðugan blæ.

Nýtt þjónustuhús hefur verið byggt við Gömlu laugina, þar eru sturtur og búningsaðstaða.

Hægt er að fræðast meira um Gömlu laugina á heimasíðu þeirra, secret lagoon.is

Staður vikunnar – Staupasteinn í Hvalfirði

Staupasteinn er bikarlaga steinn við gamla þjóðveginn um Hvalfjörð skammt frá Hvammsvík. Steinninn er einnig þekktur undir nöfnunum: Prestasteinn, Steðji, Karlinn í Skeiðhóli og Skeiðhólssteinn.

Staupasteinn var áður fyrr vinsæll áningarstaður ferðamanna sökum fagurs útsýnis yfir Hvalfjörðinn, hann var friðlýstur árið 1974.

Sagan segir að í Staupasteini dvelji einbúi nokkur, Staupa-Steinn, sem fáum er sýnilegur. Erla Stefánsdóttir sjáandi lýsir honum sem síðhærðum og skeggjuðum karli, góðlyndum, gamansömum og sérlega barngóðum. Staupa-Steinn skemmtir sér að sögn best þegar fjölskyldufólk staldrar við nálægt Staupasteini og krakkar leika sér með bolta á meðan foreldrar njóta útilofts og náttúrufegurðar.

Spölur, rekstarafélag Hvalfjarðargangna notuðu teiknaða mynd af einbúanum Staupa-Steini á kynningarefni svo sem á límmiða og boli árið 1997.

Staður vikunnar – Rauðanes í Þistilfirði

Rauðanes í Þistilfirði við veg 85 er alllangt nes með sæbröttum hömrum, einstök náttúruperla.

Úti fyrir nesinu standa sérkennilegir drangar í sjó, Stakkar. Fremsti hlutinn af nestánni, Stakkatorfa, hefur klofnað frá og eru þar göng undir sem hægt er að fara um á smábáti í
góðu veðri.

Á nesinu er merkt 7 km löng gönguleið þar sem gefur að líta sérstæða hella, dranga og
gatakletta ásamt fjölskrúðugu fuglalífi.