Staður vikunnar – Iceland Airwaves í Reykjavík

Iceland Airwaves, tónlistarhátíðin fer fram dagana 5 – 9 nóvember. Hátíðin var fyrst haldinn 1999. Um 1.000 tónleikar eru haldnir víða um borgina svo sem í kirkju, leikhúsi, verslunum, safni auk hefðbundinna tónleikastaða.
Af þúsund tónleikum eru um 650 hluti af svokallaðri “off venue” dagskrá sem fólk getur sótt sér að kostnaðarlausu. Hægt er að nálgast dagskrána á heimsaíðu hátíðarinnar icelandairwaves.is
Um sjö þúsund manns alls staðar að úr heiminum hafa tryggt sér aðgang og uppselt var á hátíðina fyrir mörgum mánuðum.
Myndina tók Alexander Matukhno á tónleikum FM Belfast í fyrra.

Staður vikunnar – Fjöllin í Norðurárdal

Þessi fallega haustmynd er tekin á þjóðvegi eitt, skammt frá Bifröst í Norðurárdal.

Fjallið til vinstri er Hraunsnefsöxl. Við rætur fjallsins er ferðaþjónustan á Hraunsnefi.

Baula, 934 m hátt líparítfjall er í miðjunni. Efst uppi á Baulu er grjótbyrgi og í því gestabók. Þar er einnig hlaðin varða. Mjög víðsýnt er af tindinum.

Grábrók er til hægri. Grábrók er um 170 metra hár gjallgígur. Göngustígur hefur verið lagður upp á gíginn og þaðan er mjög fagurt útsýni yfir Borgarfjörðinn.

Staður vikunnar – Hvítserkur

Hvítserkur er einn sérstæðasti klettadrangurinn við Ísland og rís hann um 15 metra hár í flæðarborðinu við botn Húnafjarðar austanvert við Vatnsnes.

Frá þjóðveginum í Línakradal og Víðidal um Vesturhóp eru um 30 km norður að Hvítserk, vegur númer 711. Gott bílaplan er við Hvítserk og útsýnispallur. Göngustígur hefur troðist niður suður frá bílaplaninu þar sem hægt er að komast niður í fjöruna við Hvítserk.

Það er gömul þjóðsaga að í fyrndinni hafi Hvítserkur verið tröll er bjó á Ströndum og hafi ætlað sér að brjóta niður kirkjuklukku við Þingeyraklaustur en orðið að steini þegar dagur rann.

Mynd Bjarki Björgúlfsson

Staður vikunnar – Friðarsúlan í Viðey

Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono reist í Viðey til að heiðra minningu John Lennons. Friðarsúlan er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði. Enska heitið er Imagine Peace Tower nefnt eftir lagi Lennons Imagine.

Ono segist hafa fengið hugmyndina að friðarsúlu árið 1967. Á stalli súlunnar eru grafin orðin „hugsa sér frið“ eða „imagine peace“ á 24 tungumálum . Listaverkið var vígt á afmæli Johns Lennons þann 9. október 2007.

Friðarsúlan logar samfellt á hverju ári frá sólarlagi til miðnættis frá fæðingardegi Lennons, 9. október til 8. desember sem var dánardagur hans.