Staður vikunnar – Akureyrarvaka

Dóttir-mamma-amma er þema Akureyrarviku sem fer fram dagana 28. og 29. ágúst.

Akureyrarvaka hefst formlega í Lystigarðinum föstudagskvöldið 28. ágúst með dagskránni Rökkurró. Að henni lokinni mun hvert atriðið reka annað svo sem draugaslóð, götulist, vísindasetur, porttónleika, alþjóðlegur dans, friðarvaka og margt fleira. Sjá dagskrá.

Hápunktur Akureyrarvöku eru stórtónleikar í Listagilinu með Jónasi Sig, Lay Low og fleirum ásamt Stórsveit Akureyrar undir stjórn Alberto Porro Carmona og gestastjórnandans Samúels J. Samúelssonar.

Myndin er frá stórtónleikum í Listagilinu á síðasta ári.

Staður vikunnar – Menningarnótt í Reyjavík

Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar og verður haldin í tuttugasta skipti þann 22. ágúst. Gakktu í bæinn! er yfirskrift hátíðarinnar sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.

Á Menningarnótt er miðborginni breytt í allsherjar göngugötu og er hún því lokuð fyrir almennri bílaumferð. Dagskráin hefst með Reykjavíkur- maraþoni um morguninn og síðan fyllist bærinn af fjölbreyttu og litskrúðugu menningarlífi. Sjá dagskrá á heimasíðu Menninganóttar.

Viltu kíkja með fjölskyldunni í vöfflur í Þingholtunum, fara á tónleika í Hörpu, dansa götudans á Bernhöftstorfunni, taka þátt í götu- og garðveislum sem leynast víðsvegar í miðborginni?

Hápunktur og jafnframt lokaatriði er glæsileg flugeldasýning sem hefst kl. 23.00.

Mynd Ragnar Th. Sigurðsson

Staður vikunnar – Kolugljúfur í Víðidal

Kolugljúfur eru óvenjluega falleg gljúfur sem Víðidalsá fellur um. Gljúfrin eru 1-2 km að lengd og nokkrir tugir metra á dýpt.

Þar sem áin fellur niður í gljúfrið eru fossar sem heita Kolufossar, kenndir við tröllskessuna Kolu. Sagt er að hún hafi grafið þau og átt þar síðan bústað. Ýmis örnefni tengd Kolu eru í næsta nágrenni til dæmis bærinn Kolugil sem stendur við ána.

Það er afar áhrifamikið að aka út á brúna yfir gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum.

Kolugil er skammt frá Víðigerði, ekið er eftir vegi númer 715 síðan beygt út af honum í átt að bænum Kolugili.

Staður vikunnar – Hamarsrétt á Vatnsnesi

Hamarsrétt er falleg og vel viðhaldin fjárrétt á Vatnsnesi, skammt norðan við Hvammstanga, stendur við veg númer 711.

Réttin er í fjörunni rétt sunnan við ós Hamarsár og er réttarstæðið talið eitt hið sérstæðasta á Íslandi.

Norðan við ós Hamarsár er félagsheimilið Hamarsbúð. Þar er árleg sumarhátíð, Bjartar nætur þar sem boðið er uppá Fjöruhlaðborð sem svignar af fjölda kræsinga og sjaldséðum mat, sem byggir á gömlum hefðum og hráefni úr sjó og af landi á Vatnsnesi.