Staður vikunnar – Þverá í Laxárdal

Staður vikunnar að þessu sinni er Þverá í Laxárdal í Suður – Þingeyjarsýslu. Þverá er bær og kirkjustaður.

Á Þverá stendur enn merkilegur torfbær af norðlenskri gerð og er fjöldi útihúsa enn uppistandandi, mörg þeirra í góðu ásigkomulagi.

Í gamla torfbænum var Kaupfélag Þingeyinga, elsta kaupfélag landsins, stofnað árið 1882.

Þjóðminjasafn Íslands tók bæinn í sína vörslu árið 1968

Þverárkirkja er enn bændaeign, reist 1878. Kirkjan er í prestakalli Grenjaðarstaðar.

Myndina tók Regína Hrönn Ragnarsdóttir og er hún tekin út um glugga Þverárkirkju og sýnir gamla torfbæinn.

Staður vikunnar – Þorgeirskirkja í Ljósavatnsskarði

Á þúsund ára afmæli kristnitökunnar árið 2000 var Þorgeirskirkja í Ljósavatnsskarði vígð.

Kirkjan var reist sem minnisvarði um kristnitökuna og til minningar um Þorgeir Ljósvetningagoða.

Þorgeir var einn helsti örlagavaldurinn í því að Íslandingar tóku kristna trú árið 1000. Sagt er að við heimkomuna frá Alþingi á Þingvöllum hafi Þorgeir kastað goðalíkneskjum í Goðafoss í Skjálfandafljóti nálægt Ljósavatni, sem af því dragi nafn sitt.

Myndin er tekin við altarið sem er glerveggur með útsýni yfir Ljósavatnsskarð.

Mynd Regína Hrönn Ragnarsdóttir.

Staður vikunnar – Litlibær í Skötufirði

Á ferð um Vestfirði er vel þess virði að kíkja við í Litlabæ í Skötufirði og fá dýrindis vöfflur með rjóma.

Litlibær var reistur árið 1895 af tveimur fjölskyldum sem bjuggu í húsinu. Fólkið lifði fyrst og fremst af sjósókn. Grunnflötur hússins er aðeins tæpir 4 x 7,5 metrar, og síðan er loft yfir jarðhæðinni. Útieldhús voru skammt frá bænum. Búið var í Litlabæ allt fram til ársins 1969.

Þjóðminjasafn Íslands lét endurbyggja bæinn og nú er Litlibær fjölsóttur ferðamannastaður.