Staður vikunnar – Kálfshamarsvík á Skaga

Kálfshamarsvík er lítil vík fyrir norðan Skagaströnd við veg númer 745. Stuðlaberg setur mikinn svip á umhverfið, falleg náttúrusmíð.

Á fyrstu áratugum 20. aldar og fram undir 1940 var mikil útgerð í Kálfshamarsvík og um 1930 var 151 maður heimilsfastur þar. Í þorpinu var samkomuhús og skóli og einhverjar smáverslanir.

Fiskleysi og þjóðfélagsbreytingar á stríðsárunum urðu til þess að fólki fækkaði og síðustu íbúarnir fluttu burt skömmu fyrir árið 1950.

Á Kálfshamarsnesi er reisulegur viti.
Mynd Regína Hrönn Ragnarsdóttir.

Staður vikunnar – Friðarsúlan í Viðey

Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono reist í Viðey til að heiðra minningu John Lennons. Enska heitið er Imagine Peace Tower nefnt eftir lagi Lennons Imagine.

Á stalli súlunnar eru grafin orðin Hugsa sér frið eða Imagine peace á 24 tungumálum. Listaverkið var vígt á afmæli Johns Lennons þann 9. október 2007.

Friðarsúlan verður tendruð með fallegri athöfn þann 9. október klukkan 20:00. John Lennon hefði orðið 75 ára þennan dag.

Yoko Ono býður upp á fría sigl­ingu yfir Sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá klukkan 17.30 til 19.20.

Friðarsúlan logar samfellt á hverju ári frá sólarlagi til miðnættis frá fæðingardegi Lennons, 9. október til 8. desember sem var dánardagur hans.

Mynd Ragnar TH Sigurðsson

Staður vikunnar – Þórbergssetur í Suðursveit

Þórbergssetur á Hala í Suðursveit er menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson, sem er þar fæddur uppalinn.

Í Þórbergssetri eru sýningar helgaðar sögu Suðursveitar og lífi og verkum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar.

Hönnun safnsins er einkar skemmtileg og “bókahillan” vekur athygli. Þórbergsetrið er opið allt árið þar er einnig veitingahús og minjagripaverslun.

Fyrir ofan Hala er minnisvarði um bræðurna frá Hala, Þórberg Þórðarson rithöfund, Steinþór bónda á Hala og Benedikt bónda á Kálfafelli.

Út frá minnisvarðanum hafa verið merktar tvær gönguleiðir, settar upp sem ratleikir undir heitinu, Söguferðir í Suðursveit, þar sem lítil skilti með sögum úr verkum Þórbergs og tilvitnunum í sögur Steinþórs, bróður hans.