Jólakveðja frá Vegahandbókinni

Vegahandbókin óskar landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakkar samfylgdina síðastliðin rúm 40 ár.

Við fögnum nýju ári með nýuppfærðri útgáfu af hinni sívinsælu Vegahandbók og Ferðakortum í mælikvarðanum 1:500 000. Kortin koma út á sex tungumálum; ensku, þýsku, frönsku, spænsku, kínverksu og íslensku.

Þessi fallega mynd er af Norðfjarðarkirkju. Kirkjan var tekin í notkun 1896, útbygging var reist við norðurhlið árið 1992. Kirkjan var friðuð 1990.

Myndina tók liðsmaður okkar Óttar Sveinsson.

Staður vikunnar – Aðventustemning á Akureyri

Tilvalið að skella sér til Akureyrar og upplifa einstaka aðventustemningu í höfuðstað Norðurlands.

Bærinn er ætíð fallega skreyttur. Jólaljósin með kirkjutröppunum og jólastjarnarn fyrir framan Hótel KEA vekja upp gamlar og góðar minningar hjá þeim sem hafa einhvern tíma búið á Akureyri. Heitt súkkulaði og smákökur, jólamarkaður, listsýningar, jólalög og fallega skreytta búðir með jólavarning skapa einstaka aðventustemningu sem vert er að upplifa.

Jólahúsið við Hrafnagil er heill ævintýraheimur, þar er jólasveinaþvottur á snúrum, jólailmur í loftinu og allt sem tengist jólaskrauti er þar til sölu. Garðurinn umhverfis er sérlega barnvænn og stundum er boðið þar upp á heitt súkkulaði við kertaljós úti í snjónum

Á heimasíðunni visitakureyri.is eru greinagóðar upplýsingar um viðburði á Akureyri.

Staður vikunnar – Heimili jólasveinanna í Dimmuborgum

Jólasveinarnir í Dimmuborgum eru engir venjulegir jólasveinar. Foreldrar þeirra Grýla og Leppalúði eru það gömul að Grýlu er getið í Eddu Snorra Sturlusonar.

Jólasveinarnir eru höfðingjar heim að sækja og taka þeir á móti gestum alla daga í desemeber á Hallarflötinni í Dimmuborgum milli kl. 13:00 og 15:00. Þeir eru alveg sérstaklega ánægðir að fá barnafjölskyldur í heimsókn.

Hið árlega jólabað jólasveinanna fer fram í Jarðböðunum í Mývatnssveit og byrjar það hálfum mánuði fyrir jól. Jólasveinarnir eru nú misánægðir með jólabaðið en það getur verið hin besta skemmtun að taka þátt í því með þeim.

Mjög margt er í boði í Mývatnssveit á aðventunni og er hægt að fræðast meira um það á heimsaíðunni þeirra, visitmyvant.is