Staður vikunnar – Magnað myrkur í Reykjavík

Magnað myrkur er heitið á Vetrarhátíð sem haldin verður í Reykjavík dagana 4. – 7. febrúar.
Vetrarhátíð er hátíð ljóss og myrkurs og er þetta þrettánda skiptið sem hátíðin er haldin.
Magnað myrkur fær að njóta sín en hátíðin verður öll hin glæsilegasta og mun fjöldi listamanna, safna og sundlauga taka þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. Sundlauganótt, Safnanótt og Snjófögnuður eru meginstoðir hátíðarinnar ásamt ljóslistaverkum sem lýsa upp skammdegið.
Allir viðburðir hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu og geta því allir borgarbúar notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru yfir alla hátíðina.
Dagskrána má finn á heimasíðu hátíðarinnar, vetrarhatid.is

Staður vikunnar – Geirfuglinn við Valahnúk á Reykjanesi

Staður vikunnar að þessu sinni er við styttuna af Geirfuglinum, sem er við Valahnúk á Reykjanesi.
Styttan er eftir listamanninn Todd McGrainhluti og er hluti af verkefni hans The Lost Bird Project þar sem hann vinnur skúlptúra af útdauðum fuglum og kemur þeim fyrir í upprunalegum heimkynnum þeirra. Með því vill hann vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.
Talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 var ákveðið að styttan af geirfuglinum yrði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi þar sem fuglinn horfir út til Eldeyjar.
Styttan var sett upp á Ljósanótt 2010. Mynd Regína Hrönn Ragngarsdóttir.

Staður vikunnar – Ylströndin í Nauthólsvík

Fyrsti staður vikunnar á nýju ári er Nauthólsvík.
Í síðari heimsstyrjöldinni var aðstaða í Nauthólsvík fyrir sjóflugvélar, sem voru mikilvægar í orrustunni um Atlantshafið.
Ylströndin var vígð sumarið 2000 og ári síðar var opnuð þjónustumiðstöð með búningsklefum, baðaðstöðu og veitingasölu.
Við ákjósanlegustu aðstæður er hitastig sjávarlónsins innan grjótgarðanna 15-19°C og pottarnir eru 30-39°C heitir. Lónið og pottarnir eru hitaðir upp með affallsvatni frá hitaveitugeymunum í Öskjuhlíð.Þjónustuhúsið er tilvalin aðstaða fyrir hlaupara, sem geta valið úr miklum fjölda hlaupaleiða í nágrenninu.