Staður vikunnar – Jarðböðin í Mývatnssveit

Jarðböðin við Mývatn eru staðsett í Jarðbaðshólum, um 4 km frá Reykjahlíð.
Jarðböðin eru fyrir alla sem vilja njóta þess að vera í beinni snertingu við náttúruna, slaka á og endurnæra líkama og sál. Boðið er upp á náttúruleg gufuböð, baðlón með heitu hveravatni og heitan pott. Öll aðstaða fyrir gesti er góð, búningsklefar með læstum skápum, útiklefar og góðar sturtur. Hægt er að leigja sundfatnað og handklæði.
Veitingasala er í Kaffi Kviku með stórkostlegu útsýni yfir baðlónið og Mývatn.


Jarðböðin eru opin allt árið.

Staður vikunnar – Landmannalaugar

Landmannalaugar liggja að Fjallabaki og eru einn þekktasti ferðamannastaður Íslands og án efa mest sóttu náttúrulaugarnar. Hægt er að fara í Landmannalaugar með því að fara Fjallabaksleið nyrðri, F224 eða um Landmannaleið F225.
Mikið er af skemmtilegum gönguleiðum í nágenni Landmannalauga, vinsæl gönguleið Laugavegurinn liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Laugarnar í Landmannalaugum rúma stóra hópa af fólki og hitastigið er á bilinu 34 til 41 °C. Engin aðstaða er til fataskipta.

Staður vikunnar – Gönguferð um Selfoss

Hvernig væri að gera eitthvað nýtt og öðru vísi? Til dæmis að bregða sér í gönguferð með leiðsögn um Selfoss og snæða síðan kvöldverð á einkaheimili?
Á Selfossi búa um 6.800 manns. Þéttbýli byrjaði ekki að myndast fyrr en um 1930. Í fyrstu var hengibrú byggð yfir Ölfusá 1890 en hún brast og núverandi brú var reist 1945. Á Selfossi má meðal annars að finna safn til heiðurs Bobby Fishcer.
Helga og Ragnar bjóða upp á stuttar gönguferðir um Selfoss og nágrenni sem enda í góðu spjalli yfir mat eða kaffi á notalegu heimili þeirra. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu þeirra.