Staður vikunnar – Ósvör við Ísafjarðardjúp

Ósvör er við sjávarsíðuna rétt áður en komið er til Bolungarvíkur.
Í Ósvör er tvöföld 19. aldar verbúð. Þar er til sýnis áraskipið Ölver með öllum búnaði. Í öðru húsinu eru veiðarfæri og önnur tæki og tól sem notuð voru við fiskveiðar á öldum áður, en í hinu húsinu er sýndur aðbúnaður sjómanna í veri. Í Ósvör er einnig fiskihjallur með fiski.
Verbúiðin var endurgerð vegna heimildarmynda Erlends Sveinssonar Verstöðin Ísland og Íslands þúsund ár 1990.

Staður vikunnar – Hallgrímskirkja í Reykjavík

Hallgrímskirkja er kennd við prestinn og skáldið Hallgrím Pétursson (1614-1674), sem kunnur er fyrir Passíusálmana. Kirkjan stendur efst á Skólavörðuholtinu með 73 m háan turn, sem gerir hana að mest áberandi mannvirki borgarinnar og þar með eitt aðalkennileiti hennar. Útsýni er frábært úr turninum á góðum degi. Gjald er tekið fyrir notkun lyftunnar í turninum.
Þekktastur er séra Hallgrímur fyrir Passíusálma sína, fimmtíu að tölu, sem eru íhugun á píslarsögu Jesú Krists. Bænavers úr þeim hafa fylgt íslensku þjóðinni frá vöggu til grafar um aldir og eru lesnir á hverri föstu í íslenska ríkisútvarpið.
Passíusálmarnir hafa verið þýddir á fjölmörg tungumál svo sem dönsku, norsku, ensku, þýsku, hollensku, ungversku og ítölsku og hluti þeirra á kínversku.

Staður vikunnar – Gullfoss í vetrarham

Staður vikunnar að þessu sinni er Gullfoss í vetrarham. Fossarnir okkar eru ekkert síður fallegir að vetri en sumri. Eins og fram hefur komið í fréttum er vissara að fara gætilega í nágrenni fossanna því úðinn frá þeim skapar mikla hálku sem erfitt er að eiga við.
Gullfoss er einn af helstu viðkomustöðum ferðamanna hér á landi og er áætlað að um 670 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið að Gullfossi í fyrra.
Í upphafi 20. aldar var talsverð umræða í þjóðfélaginu um virkjun fossa, líkt og nú er. Ekkert varð af virkjanaáformum í Gullfossi, þrátt fyrir sterkan áhuga. Vitað er að í að minnsta kosti einu tilfelli fengust ekki peningar til verksins.
Íslenska ríkið keypti Gullfoss um 1940 og var hann friðlýstur 1979.