Staður vikunnar – Glaumbær í Skagafirði

Glaumbær í Skagafirði, sem er hluti af Byggðasafni Skagfirðinga, hlaut Íslensku safnaverðlaunin í ár og er safnið vel að þeim verðlaunum komið.
Byggð hefur verið í Glaumbæ frá því að sögur hófust, meðal annars bjuggu þar hjónin Þorfinnur Karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir. Á meðan Guðríður var í pílagrímsferð til Rómar reisti Snorri, sonur hennar, fyrstu kirkjuna í Glaumbæ.
Í Glaumbæ er stór torfbær, sem búið var í til 1947, þar er sýningin Mannlíf í torfbæjum. Tvö 19. aldar timburhús, Áshús og Gilsstofa, hafa verið flutt að Glaumbæ.
Safnasvæðið er opið alla daga yfir sumarið frá 9:00 til 18:00. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Glaumbæjar.

Staður vikunnar – Njálurefilinn á Sögusetrinu á Hvolsvelli

Staður vikunnar að þessu sinni er Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem Njálurefilinn er að finna.
Njálurefilinn er 90 metra langur útsaumaður refill (veggteppi) þar sem Brennu-Njálssaga er sögð og sýnd frá upphafi til enda. Stofnendur og eigendur refilsins eru Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtsson. Refillinn er hannaður af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og fyrsta sporið var tekið í byrjun febrúar 2013.
Refillinn er nú rúmlega hálfnaður. Yfir sex þúsund saumakonur og -karlar frá öllum heimshornum hafa tekið sporið. Mjög gaman er að geta skilið eftir sig nálarspor í þessum fræga refli og komið síðar með barnabörnin og bent á sporin.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu refilsins: www.njalurefill.is