Staður vikunnar – Iceland Airwaves í höfuðborginni

Iceland Airwaves, tónlistarhátíðin fer fram dagana 2. – 6. nóvember. Hátíðin var fyrst haldinn 1999. Um 1.000 tónleikar eru haldnir víða um borgina svo sem í kirkju, leikhúsi, verslunum, safni auk hefðbundinna tónleikastaða.
Björk heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu laugardaginn 5. nóvember. Uppselt er á tónleikana.Af þúsund tónleikum eru um 650 hluti af svokallaðri “off venue” dagskrá sem fólk getur sótt sér að kostnaðarlausu. Hægt er að nálgast dagskrána á heimasíðu hátíðarinnar icelandairwaves.is
Í tengslum við hátíðana hafa listamenn málað listaverk á veggi ýmissa húsa í miðbænum. Myndverkin tengjast tónlist eða tónistarmönnum á ýmsan hátt.Staður vikunnar – Hvítserkur í Húnavatnssýslu

Hvítserkur er einn sérstæðasti klettadrangurinn við Ísland og rís hann um 15 metra hár í flæðarborðinu við botn Húnafjarðar austanvert við Vatnsnes.

Frá þjóðveginum í Línakradal og Víðidal um Vesturhóp eru um 30 km norður að Hvítserk, vegur númer 711. Gott bílaplan er við Hvítserk og útsýnispallur. Göngustígur hefur troðist niður suður frá bílaplaninu þar sem hægt er að komast niður í fjöruna við Hvítserk.

Það er gömul þjóðsaga að í fyrndinni hafi Hvítserkur verið tröll er bjó á Ströndum og hafi ætlað sér að brjóta niður kirkjuklukku við Þingeyraklaustur en orðið að steini þegar dagur rann.

Mynd Bjarki Björgúlfsson

Staður vikunnar – Friðarsúlan í Viðey

Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono reist í Viðey til að heiðra minningu John Lennons. Enska heitið er Imagine Peace Tower nefnt eftir lagi Lennons Imagine.

Á stalli súlunnar eru grafin orðin Hugsa sér frið eða Imagine peace á 24 tungumálum. Listaverkið var vígt á afmæli Johns Lennons þann 9. október 2007.

Friðarsúlan verður tendruð með fallegri athöfn þann 9. október klukkan 20:00.

Yoko Ono býður upp á fría sigl­ingu yfir Sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá klukkan 17.00 til 21.30.

Friðarsúlan logar samfellt á hverju ári frá sólarlagi til miðnættis frá fæðingardegi Lennons, 9. október til 8. desember sem var dánardagur hans.

Mynd Ragnar TH Sigurðsson

Staður vikunnar – Norðurljósadans

Tími Norðurljósanna er runninn upp. Frá september fram í apríl má vænta þess að sjá Norðuljós dansa um himinhvolfið á heiðskírum kvöldum. Norðurljósin hafa verið sérstaklega sterk undanfarin kvöld.
Margar ferðaskrifstofur bjóða upp á sérstakar kvöldferðir þar sem ekið er út úr ljósmengun og hægt að njóta ljósanna í allri sinni dýrð.Staður vikunnar – Strákar á Selöldu

Selalda er forn eldstöð skammt frá Krýsuvíkurbergi. Veðursorfni móbergshyrggurinn á myndinni heitir Strákar.

Hleðslurnar undir Strák eru það sem eftir er af útihúsi sem tilheyrði bænum Fitjum. Sunnan við Stráka, ekki langt frá, eru tóftir bæjarins.

Í nágrenninu er að finna ýmsa skemmtilega skúlptúra og kynjamyndir.

Til að sjá Stráka er ekið út af Suðurstrandavegi vegslóða í átt að Krýsuvíkurbergi.

Staður vikunnar – Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi

Bjarnarhöfn á norðanverðu Snæfellsnesi er þekkt fyrir hákarlaverkun og Hákarlasafn, sem gaman er að heimsækja.Hákarlsverkunin hefur verið í fjölskyldunni í margar kynslóðir og á safninu er sagt frá sögu, veiðum og verkun hákarlsins og geta gestir gengið upp að hákarlahjallinum þar sem hægt er að sjá girnilegan hákarl í verkun. Hægt að koma við og kaupa hákarl og harðfisk.Á Bjarnarhöfn er falleg litil kirkja sem var byggð 1856. Kirkja hefur verið á staðnum allt frá 12. öld.
Altaristaflan er hið mesta listaverk talin vera frá
1640. Hún er áheitagjöf frá hollenskum sjómönnum sem stunduðu fiskveiðar við landið á 17. öld.

Staður vikunnar – Snæfellsjökull

Snæfellsjökull (1.446 m) setur sterkan svip á umhverfi sitt og sést hann vel frá Reykjavík en loftlínan er 120 km.
Dul­spak­ir menn telja Snæ­fells­jök­ul dul­magn­að­an öll­um fjöll­um frem­ur. Hægt er að ganga upp á Snæfellsjökull og tekur gangan, á hæsta tind­inn, Þúf­ur, um 5–7 klst og er mjög líkamlega krefjandi.
Snæfellsjökull er sögusvið bókarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Verne, en söguhetjan ferðast að miðju jarðarinnar frá jöklinum. Einnig gerist skáldsagan Kristnihald undir Jökli, eftir Halldór Laxness, á þessum slóðum.
Snæfellsjökull er hluti af þjóðgarðinum Snæfellsjökli sem stofnaður var árið 2001.

Staður vikunnar – Akureyrarvaka

Þema Akureyrarvöku að þessu sinni er LEIKA – SKOÐA – SKAPA. Áhersla verður lögð á að fá íbúa til að taka þátt og njóta. Akureyrarvakan verður haldin dagana 26. – 28. ágúst.
Akureyrarvaka hefst formlega í Lystigarðinum föstudagskvöldið 26. ágúst með dagskránni Rökkurró.
Að henni lokinni mun hvert atriðið reka annað svo sem draugaslóðin í innbænum, götulist, vísindasetur, líflegt Listagil, friðarvaka og margt, margt fleira.
Hápunktur Akureyrarvöku er á laugardagskvöldið um kl. 21:30 þegar friðarvaka hefst í kirkjutröppunum og síðan stjórnar Ingólfur verðurguð Gilsöngur í Listagilinu.
Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðunni visitakureyri.is

Staður vikunnar – Glaumbær í Skagafirði

Glaumbær í Skagafirði, sem er hluti af Byggðasafni Skagfirðinga, hlaut Íslensku safnaverðlaunin í ár og er safnið vel að þeim verðlaunum komið.
Byggð hefur verið í Glaumbæ frá því að sögur hófust, meðal annars bjuggu þar hjónin Þorfinnur Karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir. Á meðan Guðríður var í pílagrímsferð til Rómar reisti Snorri, sonur hennar, fyrstu kirkjuna í Glaumbæ.
Í Glaumbæ er stór torfbær, sem búið var í til 1947, þar er sýningin Mannlíf í torfbæjum. Tvö 19. aldar timburhús, Áshús og Gilsstofa, hafa verið flutt að Glaumbæ.
Safnasvæðið er opið alla daga yfir sumarið frá 9:00 til 18:00. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Glaumbæjar.

Staður vikunnar – Njálurefilinn á Sögusetrinu á Hvolsvelli

Staður vikunnar að þessu sinni er Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem Njálurefilinn er að finna.
Njálurefilinn er 90 metra langur útsaumaður refill (veggteppi) þar sem Brennu-Njálssaga er sögð og sýnd frá upphafi til enda. Stofnendur og eigendur refilsins eru Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtsson. Refillinn er hannaður af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og fyrsta sporið var tekið í byrjun febrúar 2013.
Refillinn er nú rúmlega hálfnaður. Yfir sex þúsund saumakonur og -karlar frá öllum heimshornum hafa tekið sporið. Mjög gaman er að geta skilið eftir sig nálarspor í þessum fræga refli og komið síðar með barnabörnin og bent á sporin.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu refilsins: www.njalurefill.is