Hittu heimamanninn á Austurlandi

Ferðaskrifstofan Tanni á Austurlandi er með verkefnastjórn yfir Meet the locals, verkefninu sem miðar að því að fólk komi sem ferðamenn en fari sem hluti af samfélaginu „Come as a guest, leave as a friend!“.
Markmiðið er að ferðamaðurinn kynnist Austurlandi, Austfirðingum, austfirskri menningu og siðum og taki virkan þátt í dagskránni, verði ekki bara áhorfandi. Upplifi íslensk sjávarþorp, sögu og menningu þeirra ásamt því einstaka fólki sem býr á stöðunum. Þegar fólk fer til baka til síns heima hefur það ekki aðeins séð fáfarnar slóðir heldur einnig kynnst fólki á svæðinu.
Boðið er upp á bæjargöngu með heimamanni, kvöldverð í heimahúsi, ýmsar dagsferðir. Þessi dagskrá er ekki síður í boði yfir vetrartímann þegar hægt er að lenda í ýmsum ævintýrum. Hægt er að fræðast meira um ferðirnar á heimasíðunni meetthelocals.is

Torfbæir eru okkar menningarminjar

Bærinn Bustarfell í Vopnafirði er einn af okkar ómetanlegu menningarminjum sem ber að varðveita. Bærinn var byggður 1770 og búið í honum til 1966. Þrjú eldhús eru í bænum, sem öll segja sína sögu og tilheyra sínu tímabili.
Bustarfell er fornt höfuðból og ein stærsta jörð í Vopnafirði. Jörðin hefur verið í sjálfsábúð sömu ættar frá 1532.
Minjasafnið á Bustarfelli er nú til húsa í bænum og eru munir úr búi Methúsalems Methúsalmessonar (1889- 1969) uppistaða safnsins. Hann lagði mikla rækt við að halda til haga gömlum munum úr bænum og í eigu Bustarfellsættarinnar. Minjasafnið var gert að sjálfseignarstofnun 1982.
Meiri fróðleik um Bustarfell er að finna á bls. 384 í Vegahandbókinni.