Friðarsúlan tendruð í Viðey

Friðarsúlan var tendruð í Viðey í gær í sjöunda skiptið. Friðarsúlan er útilistaverk unnið af Yoko Ono til minningar um John Lennon og var verkið afhjúpað á afmælisdegi hans 9. október 2007. Fjöldi manns var í Viðey og komust færri til eyjunnar en vildu. Það er alltaf einstök stund að vera viðstaddur tendrun súlunnar. Friðarljósið setur sterkan svip á Reykjavík allt fram til 8. desember þegar slökkt er á súlunni á dánardegi Lennons.
Reykjavíkurborg gerði Yoko Ono að heiðursborgara Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Höfða. Við tendrun súlunnar voru Yoko Ono og Jón Gnarr í lopapeysum með friðarmerki sem Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir leikkona prjónaði.