Friðarsúlan tendruð í Viðey

Friðarsúlan var tendruð í Viðey í gær í sjöunda skiptið. Friðarsúlan er útilistaverk unnið af Yoko Ono til minningar um John Lennon og var verkið afhjúpað á afmælisdegi hans 9. október 2007. Fjöldi manns var í Viðey og komust færri til eyjunnar en vildu. Það er alltaf einstök stund að vera viðstaddur tendrun súlunnar. Friðarljósið setur sterkan svip á Reykjavík allt fram til 8. desember þegar slökkt er á súlunni á dánardegi Lennons.
Reykjavíkurborg gerði Yoko Ono að heiðursborgara Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Höfða. Við tendrun súlunnar voru Yoko Ono og Jón Gnarr í lopapeysum með friðarmerki sem Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir leikkona prjónaði.

Menningarnótt – Gakktu í bæinn

Menningarnótt í Reykjavík verður haldin í átjánda sinn laugardaginn 24. ágúst. Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum eða söfnum, fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum. Yfirskrift hátíðarinnar er „Gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.

Menningarnótt markar upphaf menningarárs borgarinnar þegar söfn, leikhús og aðrar menningarstofnanir og listamenn hefja sína haust- og vetrardagskrá. Hún er fastur liður í viðburðavertíð borgarinnar, haldin seinnipart ágúst hvert ár. Markmið Menningarnætur er að hvetja til menningarþátttöku með því að reiða fram fjölbreytt og ríkulegt framboð af menningarviðburðum sem gefur breiðum hópi fólks færi á að smakka á því sem koma skal og láta koma sér á óvart.

Veðurspáin gerir ráð fyrir rigningu en þá er bara að klæða sig eftir veðri og njóta fjölbreyttrar dagskrár með 600 viðburðum. Myndin er frá Menningarnótt í fyrra en þá var “sumar og sól”.